138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:36]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir ágætisræðu. Það hefur sótt á mig stöðugt meira undanfarið, sérstaklega eftir bréf Dominique Strauss-Khan til ágæts leikstjóra hér í bænum þar sem hann upplýsir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi ekki sett það sem skilyrði fyrir fyrirtöku í stjórn sjóðsins að Icesave-málið yrði afgreitt. Sömu fréttir heyrum við frá Noregi en það eru eitthvað flóknari fréttir sem við heyrum frá Svíþjóð. Því hefur það hvarflað að mér: Getur verið að moldviðrið út af afgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, ástæðan fyrir því út af hverju sú afgreiðsla hefur dregist von úr viti, hafi verið til að þvinga, hræða og raunverulega neyða stjórnarliða til að fylkja sér um þetta mál, mál sem þeir virðast einlæglega trúa á? Getur verið að ábyrgð þeirra sem stjórna landinu sé svo mikil að þeir hafi blekkt sína eigin stjórnarliða inn í þennan skollaleik?

Mig langar til að spyrja hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson: Hvernig líst honum á þá hugmynd að við mundum fara fram á það við fulltrúa Íslands í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins — við eigum þar fulltrúa á hverjum tíma, núna gegna Svíar embættinu, held ég — að stjórn sjóðsins færi fram á opinbera rannsókn um hvað væri satt í þessu máli?