138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir mjög fína ræðu sem ég get tekið undir að flestu leyti.

Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að í sumar þegar málið kom fyrst til umræðu á þingi, þegar samningurinn var undirritaður 5. júní, eins ömurlegur og hann var nú, kom ríkisstjórnin málinu ekki í gegnum Alþingi. Hún gat ekki fengið þingið til þess að samþykkja það, hún hafði ekki meiri hluta fyrir samningunum. Eins og hv. þingmaður orðaði það tók þingið í raun og veru völdin af framkvæmdarvaldinu með því.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Eftir að búið var að samþykkja fyrirvara Alþingis gerðist það sama og kom fram í ræðu eins hv. þingmanns hér í dag, nánast sama fólkið er látið fara til baka með samninginn sem það var búið að koma með heim til þess að kynna breytingar. Það kom mjög skýrt fram hjá manni sem heitir Lee Buchheit, sem er mjög reyndur samningamaður, þegar hann fundaði með fjárlaganefnd í sumar, hann sagði að þegar menn væru nánast búnir að komast að niðurstöðu væri mjög mikilvægt að málið væri tekið upp á hærra stig, á pólitískt stig, eins og hann orðaði það. Þá yrðu valdamenn þjóðarinnar, eins og til að mynda hæstv. forsætisráðherra sem hefur ekki sést hér síðan við byrjuðum að ræða Icesave í vor, (Gripið fram í: … bak við þil.) — já, hún er ugglaust bak við þil — að óska eftir fundi. Hefði ekki verið skynsamlegra að hæstv. forsætisráðherra hefði sleppt því að skrifa bréf? Á þessum fundi mundu ráðamenn kynna fyrirvarana fyrir forsætisráðherrum Breta og Hollendinga og lýsa getu íslenskrar þjóðar til að standa undir þessum skuldbindingum, í staðinn fyrir að skrifa bréf, og reyna að koma þessum skilaboðum frá Alþingi með trúverðugum hætti. (Forseti hringir.) Hvað finnst hv. þingmanni um þetta?