138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:11]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo það sé alveg á hreinu held ég að ég hafi ekki meira álit á hæstv. ríkisstjórn en hv. þingmaður vegna þess að ég hef alls ekkert álit á henni. Það sem ég dró hins vegar fram var að menn færðu réttu skilaboðin frá Alþingi til viðsemjenda okkar.

Hv. þingmaður talaði líka um þá gríðarlegu upphæð sem við þurfum að borga, við munum borga 100 milljónir á dag, eins og hv. þingmaður benti á. Það þarf skatttekjur 79 þúsund einstaklinga til þess að borga bara þessa vexti. Nú liggur það fyrir að búið er að samþykkja að greiða vexti frá 1. janúar 2009 þó að okkur beri ekki lagaleg skylda til þess og það eru 30–40 milljarðar á ári við þær aðstæður sem við erum í núna. Við erum nú að reyna að taka til í ríkisrekstrinum eða skera niður svipaða upphæð. Eins og allir hv. þingmenn hér inni vita er allt hér á öðrum endanum vegna þess að það eru allir að kikna undan þeim niðurskurði sem þegar hefur verið ráðist í. Þá velti ég því fyrir mér og vil spyrja hv. þingmann um (Forseti hringir.) hvort henni finnst það sanngjarnt að menn borgi vexti áður en greiða á upp á slíkar upphæðir.