138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:13]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil, eins og sá sem kom hér í andsvar á undan mér, þakka hv. þingmanni fyrir afar góða ræðu og ég er um margt sammála því sem þar kom fram. Ég er sérstaklega sammála því sem fram kom núna í lokaorðum þingmannsins í andsvari varðandi trú ríkisstjórnarinnar á verkefninu. Ég er algjörlega sammála þingmanninum um að það er stóra vandamálið í þessu og kom fram í 1. umr. þegar hv. formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, viðurkenndi það beinlínis að ríkisstjórnin hefði aldrei haft trú á því að hægt væri að sannfæra aðrar þjóðir um þessa fyrirvara.

Því vil ég spyrja hv. þingmann, af því að þingmaðurinn talaði um vinnubrögðin í sumar og að við hefðum náð saman þvert á flokka: Telur þingmaðurinn að það hafi einhvern tíma staðið til að breyta einhverju í meðförum þingsins í þessari umferð varðandi það frumvarp sem nú liggur fyrir þinginu, að við gætum gert eins og í sumar og tekið höndum saman? Eða heldur þingmaðurinn að þetta hafi allt saman verið ákveðið fyrir fram og að það hafi aldrei staðið til að leyfa okkur að hafa nein áhrif á þetta?

Ég spyr þingmanninn beint út: Telur þingmaðurinn að þetta hafi verið heiðarlegur leikur eða var þetta kannski blekkingarleikur? Hvert er álit þingmannsins á því?