138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:15]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég hef ekki rekist á neitt heiðarlegt í þessu máli, það er bara þannig. Ég held að við höfum verið dregin hér á asnaeyrunum frá því fyrir kosningar. Ég trúi ekki öðru en að fyrsti samningurinn, sá sem skrifað var undir 5. júní, hafi legið fyrir frá því fyrir kosningar. Það var reynt að telja okkur trú um að honum hefði verið tjaslað saman á tveimur dögum en hann var ekki þesslegur.

Ég held í raun að ekki hafi verið neitt svigrúm til breytinga núna. Það þýðir samt ekki að þingið geti ekki breytt þessu því að það átti ekki að vera neitt svigrúm heldur í vor. Við áttum ekki einu sinni að fá að lesa samninginn, við skulum öll muna hvernig vinnubrögðin voru. Í sumar viðurkenndi hæstv. utanríkisráðherra — sem er reyndar ekki hér í dag — fyrir mér að við hefðum aldrei átt að fá að sjá þennan samning þannig að ég veit ekki hvar heiðarleikinn er í þessu máli.