138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að það væri mjög mikilvægt að menn drifu sig í að klára þetta mál. Þegar skrifað var undir samningana 5. júní í sumar var hann einn fyrsti stjórnarþingmaðurinn til að stíga fram og hvetja til þess og lýsti því yfir að hann mundi styðja þessa samninga þegar hann hafði ekki haft neina möguleika til að kynna sér hvað í þeim fólst vegna þess að upplýsingarnar komu miklu seinna fram í dagsljósið. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist ekki við þær aðstæður sem þá voru uppi það hafa verið ákveðið frumhlaup af hans hálfu að lýsa strax yfir stuðningi við samningana áður en hann hafði haft tök á að kynna sér í raun og veru hvað í þeim fólst.

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann um það sem eftir stendur þá af fyrirvörunum hvað varðar náttúruauðlindir og það allt saman. Finnst hv. þingmanni samningarnir ekki þó (Forseti hringir.) ívið skárri núna en þeir voru 5. júní?