138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sagði um vandann við spunann, þennan endalausa spuna sem birtist enn skýrar í þessu máli en í nokkru öðru. Það sést kannski best á því að allt það sem hv. þingmaður rakti í ræðu sinni, þessar endalausu þversagnir sem ríkisstjórnin gert sig seka um, hefur ekki almennilega verið gert grein fyrir í fjölmiðlunum þó að þeir sem fylgjast vel með geti áttað sig á þessu. En maður hlýtur þó að velta því fyrir sér að ef raunin er sú að þeir vilji ekki horfast í augu við staðreyndir málsins og bregðast við með endalausum spunaleikjum, hver er þá drifkrafturinn? Hvað er það sem veldur því að þessi ríkisstjórn leggur svo mikið á sig til að komast hjá því að ræða staðreyndir þessa máls og verja hagsmuni Íslands? Hvar liggur drifkraftur ríkisstjórnarinnar í þessari afstöðu?