138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:45]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr: Hvar liggur drifkrafturinn? Ég held að drifkrafturinn hjá Samfylkingunni liggi í Evrópusambandinu, enda hefur það margoft komið fram að ekki má falla neitt kusk á umsóknina, það gæti truflað, ef við samþykkjum ekki Icesave er það í raun og veru þannig að það gæti truflað ferlið. Það hefur komið fram í máli margra hv. þingmanna, eftir að þeir hafa farið utan, að það hafi verið bent á það að ef þeir gleypi ekki Icesave-reikningana þýði ekkert að sækja um Evrópusambandið því að Bretar og Hollendingar muni ekki samþykkja það.

Það sem drífur Vinstri græna áfram í þessu máli, held ég, er bara sú trú að það sé mjög nauðsynlegt að hafa vinstri stjórn í landinu, alveg sama hvað það kostar þjóðina, hér verði að vera vinstri stjórn. Þegar upp er staðið mun kostnaðurinn af þessu vera annars vegar það sem dregur Samfylkinguna áfram sem er Evrópusambandið og hins vegar það sem dregur Vinstri græna áfram sem er sú ofurtrú að það sé mjög nauðsynlegt að hafa hér áfram þessa handónýtu vinstri stjórn.