138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:52]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mín skoðun er sú að ríkisstjórn Íslands hafi algjörlega brugðist í því að koma sjónarmiðum Íslendinga á framfæri erlendis, algjörlega brugðist skyldu sinni í þeim efnum. Ég vek athygli á því að þegar menn voru að ræða þetta hér þegar búið var að setja fyrirvarana, benti einn hv. þingmaður, Pétur Blöndal, á það að nú yrðum við að fara og kynna málið og vinna því fylgi. Og hvað kom fram í ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar þegar hann ávarpaði Norðurlandaráðsþingið og fór yfir þessa stöðu og kynnti málið þar? Þá varð bara uppi fótur og fit.

Svo vil ég bara minna hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson á að það var nú þannig að hæstv. forsætisráðherra týndist í nokkrar vikur í sumar og fannst ekki, hvorki fyrir innlenda né erlenda fjölmiðla. Það var meira að segja kvartað undan því af hálfu erlendra fjölmiðla að þeir hafi verið búnir að fá bókaða tíma hjá hæstv. forsætisráðherra en þeir voru bara afboðaðir. (Forseti hringir.) Það segir kannski allt um það hvernig unnið hefur verið að þessu máli.