138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili áhyggjum með hv. þm. Eygló Harðardóttur um neyðarlögin, ef þau mundu ekki halda. Það er komið inn á það í nefndaráliti okkar frá efnahags- og skattanefnd, þar er einmitt rakið hvað mundi gerast og sú hætta sem því fylgir þó að maður voni svo innilega að til þess komi ekki. En á það er einmitt bent í nefndarálitinu að þá værum við komin í varanlega fátæktargildru vegna þess að þá kæmu að sjálfsögðu fram margfalt hærri upphæðir.

Hv. þingmaður kom inn á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og mat hans á þessu, hún benti réttilega á að menn sögðu hér í upphafi að skuldaþol íslenskrar þjóðar væri í kringum 240%, það væri algjört hámark og þolmörkin væru þar. Síðan förum við upp í 310% og þá eru þolmörkin komin þangað. Auðvitað er maður rosalega hugsi yfir því hvað liggur þarna að baki vegna þess að það sem við höfum mestu áhyggjurnar af er hvort við getum staðið undir þessum skuldbindingum sem þjóð. Það er það sem við öll höfum áhyggjur af hér í þingsal Alþingis.

Það sem er þó verst við þessa breytingu á fyrirvörunum, vegna þess að menn voru mjög sáttir við þann efnahagslega fyrirvara sem var í lögunum frá því í ágúst, er að það var bundið við 6% af vexti hagvaxtar, það var sem sagt brúttógreiðslan, en í dag er þetta þannig að við verðum alltaf eftir sem áður að greiða vextina. Ef svo færi að við lentum í því að neyðarlögin mundu ekki halda mundum við lenda í fátæktargildru og gætum ekki komist út úr því að greiða þessa vexti. Það eru áhyggjurnar sem við höfum af þeim breytingum sem þarna eiga sér stað, því að það er búið að aftengja efnahagslega fyrirvara að því leyti að við verðum alltaf að borga vextina.