138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vek sérstaklega athygli á því að í upphafi þessa þingfundar, þegar við byrjum að ræða þessa erfiðustu milliríkjadeilu síðari ára og lausn á henni, óskuðum við þingmenn í stjórnarandstöðunni óskuðum eftir því að ráðherrar yrðu viðstaddir. Það er rétt að taka fram að hæstv. fjármálaráðherra var hér lungann úr deginum en hæstv. forsætisráðherra hefur ekki sýnt sig, hefur ekki verið viðstödd eina mínútu af þessari umræðu. Það merkilega er að hún hefur ekki einu sinni tekið til máls, hún hefur ekki rætt þetta mál sem við erum að ræða núna á haustþingi, ekki einu sinni. Hún hefur ekki skoðun á þessu. Eða er það þannig að hún ætli bara að láta Vinstri græna um að verja þetta erfiða mál, jafngalið og það er? Ég hvet forseta til þess, af því að við vitum að þingfundi mun ljúka núna um kl. 12, að undirbúa forsætisráðherra fyrir að hér verði umræða áfram í næstu viku um Icesave-málið og ég hvet forseta þingsins til að senda forsætisráðherra bréf í tæka tíð til að undirbúa hana og skipuleggja (Forseti hringir.) tíma forsætisráðherra þannig að forsætisráðherra Íslands geti verið viðstaddur umræðu um Icesave, (Forseti hringir.) þetta erfiða og mikla og mikilvæga mál fyrir Ísland og íslenska hagsmuni.