138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:13]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að hrósa forseta. Það er greinilegt að forseti Alþingis hefur tekið hann í kennslustund í að slá á bjölluna og hann hefur verið góður nemandi. Ég ítreka það sem ég sagði í fyrri athugasemd minni um fundarstjórn forseta, ég er alveg geysilega ósátt við þær upplýsingar sem koma hér fram um hvað ráðherrar hafa tekið lítið til máls. Maður hefur upplifað það þegar maður hefur setið hérna kvöld eftir kvöld á fundum, bæði í sumar og núna á þessu þingi, hvað ráðherrarnir virðast einmitt að mörgu leyti illa inni í þessu máli og virðast alls ekki hafa kynnt sér það.

Það var t.d. mjög sláandi á sumarþinginu þegar hæstv. forsætisráðherra virtist alls ekki gera sér grein fyrir því hvernig uppgjör á þrotabúi fer fram og reyndar kom síðan í ljós að ráðherrarnir höfðu ekki einu sinni lesið viðkomandi samning áður en þeir voru tilbúnir til að kvitta undir hann. Maður spyr hvort það sé staðan núna líka að ráðherrarnir hafi hreinlega engan (Forseti hringir.) áhuga á að kynna sér þetta (Forseti hringir.) stærsta mál Íslandssögunnar.