138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þó að það sé mikið áhyggjuefni að helmingur ráðherra hafi ekki talið ástæðu til að tjá sig um þetta mál og þeir sem hafa talað hafi flestir talað mjög lítið er það þeim mun meira áhyggjuefni að ráðherrarnir skuli ekki hlusta, skuli ekki vera hér til að hlýða á ræður annarra þingmanna sem margar hverjar hafa verið vel undirbúnar, flestar hverjar reyndar, og vel ígrundaðar og þar komi fram gríðarlega mikilvægar upplýsingar, upplýsingar sem kannski hafa í flestum tilvikum komið fram áður en virðast þó vera ráðherrum algjörlega ókunnar, ekki hvað síst hæstv. forsætisráðherra sem aftur og aftur hefur verið staðin að því að vera ekki inni í málinu, þekkja ekki þetta gríðarlega stóra hagsmunamál þjóðarinnar, en vera engu að síður tilbúin til að beita sér fyrir samþykki þess. Það er að sjálfsögðu algjörlega óviðunandi staða sem er ekki hægt að laga nema ráðherrann fáist til að hlusta (Forseti hringir.) á skýringar.