138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

vextir af Icesave.

[13:34]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Nú hafa komið fram nýjar upplýsingar sem dr. Daniel Gros, forstöðumaður Centre for European Policy Studies í Brussel, hefur sett fram um vexti og jafnræðisreglu EES-samningsins. Hann bendir á að ef jafnræðisreglu EES-réttar hefði verið beitt hefði mátt spara allt að 184 milljarða í vaxtakostnað. Þessi jafnræðisregla stafar m.a. af samkeppnissjónarmiðum sem eru þannig komin til að ef einn tryggingarsjóður býr við betri kjör en annar eru þær fjármálastofnanir sem njóta tryggingaverndar hins fyrrnefnda augljóslega í betri samkeppnisstöðu en aðrar. Það býður augljóslega upp á að beita þarf einhvers konar jafnræðisreglu á milli tryggingarsjóðanna. Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Stendur til að taka upp við Breta og Hollendinga ný álitamál sem koma fram í álitsgerð Daniels Gros um vexti og jafnræðisreglu EES-réttar og þá 184 milljarða sem sparast í vaxtakostnað, verði henni beitt?