138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

vextir af Icesave.

[13:36]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vek athygli á því að það mál sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni, eða öllu heldur frumvarp sem tengist Icesave-málinu, er næsta mál á dagskrá þessa fundar og ég held að það væri heppilegra að ræða slík álitamál innan dagskrármála þegar þau eru á dagskrá viðkomandi þingdags. (Gripið fram í.) Ef hv. þingmaður vill hafa ró augnablik, kannski bara fá sér sæti á meðan ég tala, er á hinn bóginn sjálfsagt að svara þessu.

Svarið er tvíþætt: Annars vegar er ákaflega óljóst til hvers konar jafnræðisreglu greinarhöfundur er að vísa í þessu sambandi. Við höfum ekki fundið því stað hvernig hægt er að heimfæra einhverja jafnræðisreglu í skilningi samkeppnisréttar milli fyrirtækja eða samkeppnisaðila á markaði undir þetta mál. Það er engin altæk jafnræðisregla til í evrópskum rétti sem hægt er að vitna í með þessum hætti þannig að ég hef ekki enn séð lögfræðilegu rökin fyrir því að það sé mikið að sækja í álit þessa annars ágæta sérfræðings.

Varðandi útreikninga hans á hinn bóginn hefur hann með stuttu millibili birt tvær stórkostlegar greinar þar sem munar nokkur hundruð milljörðum á hans eigin útreikningum. Þá fer maður aðeins að spyrja hvort það sé kostnaðarins virði að hafa þennan merka sérfræðing í bankaráði Seðlabankans, en nóg um það. Hitt er alveg ljóst að í þessari grein er horft fram hjá einu grundvallaratriði þessa máls, þ.e. muninum á föstum og breytilegum vöxtum. Það þýðir auðvitað ekki að setja hlutina þannig fram að maður leggi að jöfnu lága skammtímavexti augnabliksins, sem eru í algeru sögulegu lágmarki, og fasta vexti á langtímaláni, sem var rækilega farið yfir af Seðlabanka og fleiri aðilum heima að væri öruggara og hagstæðara að taka í þessu tilviki, og á kjörum sem væru væntanlega sömuleiðis sögulega séð einhver þau bestu sem mundu bjóðast. Þarna voru festir lægstu langtímavextir sem sést hafa um áratugaskeið með tiltölulega hóflegu vaxtaálagi. (Forseti hringir.) Ég verð því miður að segja eins og er, þegar haft er í huga að horft er fram hjá þessu grundvallaratriði málsins, að ég hef (Forseti hringir.) efasemdir um hvað mikið er með þessa útreikninga að gera.