138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

vextir af Icesave.

[13:38]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég bar fram ósköp sakleysislega og kurteislega spurningu og fékk hálfgerðan skæting fyrir. Hvað varðar fasta og breytilega vexti er það þannig að nú eru sex ár þangað til greiða á fyrstu Icesave-greiðsluna, ekki sjö, það er að verða liðið eitt ár. Því lægri sem vaxtabyrðin er í upphafi því minni verður upphæðin sem þarf að greiða, eðli málsins samkvæmt, það ætti pólitískur ráðgjafi og fjölfræðingur fjármálaráðherra að vita. Hafa þessar staðreyndir verið teknar með í reikninginn? Það lítur út fyrir að vextir verði lágir núna, einkum næstu ár meðan stærsti stabbinn er í þessari Icesave-skuld. Eða er litið fram hjá þessari staðreynd til að ríkisstjórnin geti slegið pólitískar keilur, eins og Eiríkur Bergmann, forstöðumaður Evrópufræðisetursins, benti á og orðaði svo réttilega nú á dögunum?