138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

vextir af Icesave.

[13:39]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég veit ekki af hverju hv. þingmaður talar um skæting. Ég taldi mig svara spurningu hans. (TÞH: ... setjast niður ...) — Það var bara umhyggja fyrir hv. þingmanni. Ég svaraði þessari spurningu þó að það megi með fullum rétti benda á að málið er á dagskrá þessa þingfundar og þó að það tengist ekki þessu sérstaklega verð ég að segja, virðulegi forseti, að mér finnst vera orðin mikil lausung í því að það þyki sjálfsagt mál að taka mál upp utan dagskrár eða undir öðru formi þó að viðkomandi mál sé síðan reglubundið á dagskrá þingsins. Það er auðvitað rétti vettvangurinn til að ræða slík mál. (Gripið fram í.)

Varðandi vexti verða menn að horfa á muninn á því að festa lán til langs tíma á föstum vöxtum öryggisins vegna. Það var mat þeirra fagaðila sem leitað var ráðgjafar hjá að þetta væri skynsamlegt m.a. vegna þess að ríkið tekur önnur lán til skemmri tíma á breytilegum vöxtum. Með því er áhættunni dreift. Var talið að þetta kæmi einfaldlega betur út og væri í heildarsamhengi mála skynsamleg ráðstöfun af hálfu ríkisins (Forseti hringir.) og því varð niðurstaðan þessi. (Gripið fram í.)