138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

launakröfur á hendur Landsbanka.

[13:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Þetta var vitanlega ekkert svar. Hæstv. ráðherra sagðist ekki hafa ráðið manninn til starfa. Hins vegar er hann að sinna ákveðnum verkefnum. Hver réð hann þá í það verkefni? Er hann ekki að starfa að verkefnum fyrir hæstv. ráðherra? Hann svarar því kannski.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aftur þeirra spurninga sem ég spurði áðan: Styður hæstv. félagsmálaráðherra kröfu þessa ráðgjafa, sem ekki virðist vera starfsmaður hans? Telur ráðherrann kröfu aðstoðarmannsins siðferðislega rétta eða þessa ráðgjafa sem vinnur fyrir hann en samt ekki fyrir hann? Telur ráðherra ástæðu til að endurskoða ráðningarsamning eða starfssamning sem gerður er við þennan ágæta ráðgjafa í ljósi þessa máls? Ef ég dreg þetta saman: Styður ráðherrann kröfuna? Telur ráðherrann hana siðferðislega rétta og mun hann halda manninum áfram í vinnu?