138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

orð forsætisráðherra um Suðvesturlínu.

[13:47]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vona að ég styggi ekki hæstv. fjármálaráðherra mjög mikið með að leggja fram þessa fyrirspurn en mér vitandi er þetta mál ekki á dagskrá í þinginu í dag. Við sem barist höfum fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu glöddumst ákaflega yfir yfirlýsingum hæstv. forsætisráðherra á samfylkingarfundi í Reykjanesbæ um helgina en þar boðaði hún þúsundir starfa við stóriðju- og virkjunarframkvæmdir á næstu mánuðum. Má þar nefna vinnu við Búðarhálsvirkjun, álverið í Straumsvík og Helguvík. Ráðherrann sagðist vera sannfærð um að öllum hindrunum í vegi Suðvesturlínu, sem er forsenda þessara framkvæmda, verði rutt úr vegi þannig að framkvæmdir geti hafist strax næsta sumar. Það þarf svo sem ekkert að koma á óvart vegna þess að það er nánast samhljóða orðalaginu í stöðugleikasáttmálanum sem ríkisstjórnin gerði við aðila vinnumarkaðarins og maður hlýtur að gera ráð fyrir að ríkisstjórnin ætli sér eða hafi ætlað sér að standa við hann.

Forsætisráðherra talar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar alla jafna og þá mætti ætla að orð ráðherrans væru bindandi og stefnumótandi. Þess vegna urðu það mér ákveðin vonbrigði og vakti þó nokkra furðu mína þegar ýmsir úr samstarfsflokknum andmæltu ráðherranum, slógu á puttana á hæstv. forsætisráðherra og mótmæltu yfirlýsingum hennar. Hæstv. umhverfisráðherra sagðist undrandi og sagði að ráðherra þyrfti að skýra mál sitt. Þingflokksformaður Vinstri grænna bað hæstv. forsætisráðherra um að segja frekar minna en meira. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra, í ljósi þess að þjóðhagsspá ráðherrans og fjármálaráðuneytisins gerir ráð fyrir báðum þessum framkvæmdum, Straumsvík og Helguvík, til að drífa hagvöxtinn áfram, hvort hæstv. ráðherra geti ekki örugglega tekið undir yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra. Hvort yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra séu ekki örugglega bindandi og stefnumótandi fyrir ríkisstjórnina og hvort það sé ekki algerlega öruggt að þær yfirlýsingar sem hæstv. forsætisráðherra gaf í þessu góða stjórnarsamstarfi hafi verið gefnar í nánu og góðu samstarfi og samráði forustumanna hæstv. ríkisstjórnar.