138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

lögmæti neyðarlaganna.

[13:55]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Enn sem komið er er mér ekki kunnugt um að mál sem reynir beint á gildi neyðarlaganna sé komið til dómstóla. Það eru afmörkuð mál farin af stað eða í undirbúningi sem varða einstaka þætti, framgöngu íslenskra stjórnvalda í kjölfar bankahrunsins, en neyðarlögin sjálf sem slík eru mér vitanlega ekki komin til dómstóla.

Það er ekkert sem bendir til annars en þau haldi og ég held að það sé mikilvægt að við sameinumst um að reyna að treysta varnir hvað það varðar því að það mun skapa mikla flækju þegar eða ef það yrði vefengt að þau fengju staðist, enda vandséð hvers vegna Ísland sem fullvalda ríki mátti ekki grípa til varna fyrir sjálft sig þegar svo var komið sem komið var í októbermánuði sl. Það er almennt viðurkennt að þá hafa stjórnvöld löggjafar- og framkvæmdarvald ríkari réttindi en endranær þegar slíkar aðstæður koma upp.

Það sem er næst okkur í tíma í þessum efnum er að sjálfsögðu að undirbúa varnir okkar og það er nægur tími til stefnu. Ef menn fara að hafa áhyggjur af því eftir áralöng málaferli að neyðarlögin kynnu að vera í einhverju uppnámi þarf að undirbúa þá plön í þeim efnum. Það sem nú þarf að gera er fyrst og fremst að treysta varnirnar og undirbúa málflutning af hálfu ríkisins ef að því verður sótt, þar á meðal að við höfum okkar færustu lögmenn okkar megin víglínunnar til að verja okkur og ríkið en sækja ekki á okkur fyrir hönd einhverra erlendra aðila. Ég held að það sé engin ástæða til taugaveiklunar í þessum efnum og við eigum fyrst og fremst að undirbúa okkur vel enda höfum við til þess nægan tíma.

Þeim mun meira sem við náum samningum um lyktir þessara mála dregur úr líkunum á því að á neyðarlögin verði látið reyna af öflugum aðilum. Þess vegna er það gríðarlega mikilvægt í þessu sambandi ef nú innan örfárra vikna hillir undir að við ljúkum endurreisn allra stóru bankanna í samkomulagi við þá sem þar er við að semja. Það er mjög mikilvægt innlegg í að bægja frá hættunni af því að við mætum öflugum aðilum sem láta reyna á gildi neyðarlaganna auk þess sem slík málaferli mundu eðli málsins samkvæmt taka mjög langan tíma og (Forseti hringir.) vera flókin. Það líða mörg ár þangað til við þurfum að fara að velta fyrir okkur mögulegri niðurstöðu í slíkum málaferlum.