138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

verkaskipting milli heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis vegna hjúkrunarheimila.

[14:18]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að taka þetta mikilvæga mál upp og ég lýsi líka undrun minni á því að um það skuli ekki hafa verið fjallað á þinginu áður en þessi ákvörðun var tekin. Hér er um að ræða stórkostlega breytingu á skipulagi heilbrigðismála í landinu. Þetta kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti. Verið er að flytja heilbrigðismál yfir í félagsmálaráðuneytið. Verið er að flytja ákveðna hluta af sjúkrastofnun yfir í félagsmálaráðuneytið, í alls óskylt ráðuneyti. Það hlýtur að kalla á verulega umræðu um það hvert við stefnum með þessu.

Auðvitað vonum við öll að heimaþjónusta, þjónusta við fólk heima, verði sem best þannig að ekki þurfi mjög margir að fara á hjúkrunarheimili, en það er ekki hægt að tala um hjúkrunarheimili og dvalarheimili í sama orðinu. Það eru allt önnur úrræði sem boðið er upp á á dvalarheimili. Það getur vel verið að það eigi heima í öðru ráðuneytinu en hjúkrunarheimili. Hér er um að ræða hreina þjónustu við lasburða fólk, fólk sem er orðið verulega veikt, og þetta er ekkert annað en sjúkrastofnun. Ég verð að lýsa mikilli undrun minni á þessu og þetta hljómar töluvert eins og það sé eitthvert áhugamál fyrrverandi félagsmálaráðherra, nú hæstv. forsætisráðherra, að flytja þennan málaflokk í félagsmálaráðuneytið algjörlega óhugsað. (Gripið fram í.) Ég skora á hæstv. heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir því að þetta sé skoðað miklu betur en gert hefur verið og það er nauðsynlegt fyrir þennan viðkvæma hóp sem aldraðir eru — það er mjög mikilvægur þjóðfélagshópur sem er að ljúka sínu ævistarfi — að menn umgangist hann af virðingu og ræði hlutina betur áður en farið er í farið er í svona grundvallarbreytingar að algjörlega óskoðuðu máli, að því er virðist.

Ég skora því á hæstv. heilbrigðisráðherra að skoða þetta nú betur og athuga hvort hægt sé að finna einhvern annan flöt á þessu máli en hér er lagt til.