138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

verkaskipting milli heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis vegna hjúkrunarheimila.

[14:20]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Í áratugi hefur það verið markmið þeirra sem hafa viljað framþróun í öldrunarþjónustu á Íslandi að styrkja hana sem þjónustu við fólk á félagslegum forsendum og hætta að líta á öldrun sem sjúkdóm. (Gripið fram í.) Það hefur verið markmið hagsmunasamtaka aldraðra um langt árabil. Það er líka mjög sérkennilegt að heyra hér fulltrúa Sjálfstæðisflokksins koma algjörlega af fjöllum varðandi þessa breytingu því að hún er bein afleiðing þeirra ákvarðana sem teknar voru (Gripið fram í.) árið 2007 (Gripið fram í.) þegar yfirstjórn málaflokks aldraðra var flutt úr heilbrigðisráðuneytinu yfir til félags- og tryggingamálaráðuneytisins. (Gripið fram í.) Þá lá alltaf fyrir að í kjölfarið mundu flytjast yfir þeir þættir sem hér um ræðir. (Gripið fram í.) Grundvallaratriðið er það að um heimili fólks er að ræða á hjúkrunarstofnunum og við viljum nálgast málið með þeim hætti. Um þessa breytingu er mikil sátt meðal hagsmunasamtaka sem líta á þetta sem mjög jákvætt skref. Að sjálfsögðu mun breytingin ekki hafa í för með sér að fagleg gæði þjónustu við aldraða minnki, (Gripið fram í.) enda er það algjörlega fráleitt, vegna þess að það eru þegar mörg dæmi um að félags- og tryggingamálaráðuneytið reki velferðarúrræði þar sem mikillar heilbrigðisþjónustu er þörf. Hún er alltaf veitt á ábyrgð viðkomandi heilbrigðisstétta og undir eftirliti landlæknis.

Ég tek undir það sem hæstv. heilbrigðisráðherra rakti hér áðan, að auðvitað er mikilvægast af öllu að samþætta málaflokkinn í heild. Um þá stefnumörkun núverandi ríkisstjórnar er mikil sátt meðal hagsmunaaðila og meðal sveitarfélaganna í landinu. Þau vilja fá þessa þjónustu í heild yfir til sín. Ég held að það sé mjög mikilvægt til að skapa hagræðingarmöguleika við að samþætta heimaþjónustu og heimahjúkrun að setja á eina hönd allar ákvarðanir um frekari uppbyggingu úrræða. Við munum vinna áfram að því. Það skref sem nú hefur verið tekið er mikilvægur þáttur í þeirri breytingu og við munum áfram vinna að því að í góðri sátt við sveitarfélögin að ganga alla leið og koma þessum málaflokki í heild til sveitarfélaga.