138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

verkaskipting milli heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis vegna hjúkrunarheimila.

[14:25]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Varðandi það mál sem við ræðum nú vil ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að taka það hér upp. Við höfum rætt það í heilbrigðisnefnd og ég veit að það verður líka gert í félagsmálanefnd í tengslum við vinnu við gerð fjárlaga. Þar birtist nefndinni tímasetning á þessum verkefnum og ég verð að ítreka að hin pólitíska umræða í heilbrigðisnefnd og félagsmálanefnd hefur ekki farið fram. Það er kannski þess vegna sem það er einhver órói í brjóstum okkar sem eigum að standa vörð um þennan málaflokk, að hafa ekki farið í gegnum þessa umræðu. Við munum fá sameiginlega kynningu í nefndunum frá verkefnisstjórninni á því hvar málin standa og hverjar hugmyndirnar eru, þær eru okkur ekki ljósar í dag.

Tíminn er stuttur en um eitt held ég að við höfum sameinast sem þjóð og getum nefnt það sem þjóðarsátt, þ.e. að efla beri nærþjónustu sveitarfélaganna, að efla beri svæðisbundna þjónustu, að efla beri þjónustu við einstaklinga í heimahúsum. Þess vegna fékk frumvarpið um breytingu á stjórnarráðinu árið 2007 svona góðar undirtektir, að færa málefni aldraðra og fólks með fötlun yfir til sveitarfélaganna, yfir til nærþjónustunnar.

En hvað varðar þessar breytingar, hæstv. forseti, vil ég nefna að mér hefði á þessu stigi fundist rétt að taka stutt skref nú um áramótin og flytja uppbyggingu hjúkrunarheimilanna, sem sé fjármögnun byggingar hjúkrunarheimila, (Forseti hringir.) yfir til félagsmálaráðuneytisins, ef litið er á Íbúðalánasjóð sem fjármögnunaraðila á uppbyggingu (Forseti hringir.) á nýbyggingum, en láta annað vera í bili. En ég tel mjög mikilvægt að við ræðum þetta áfram.