138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

verkaskipting milli heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis vegna hjúkrunarheimila.

[14:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég hvet alla þá sem hafa áhuga á stjórnmálum að skoða þetta mál sérstaklega, einkum fræðimenn því að þetta er skýrt dæmi um smákóngabaráttu. Það hefur ekkert með fagleg vinnubrögð að gera, ekki neitt, og staðfestingin á því var ræða hæstv. félagsmálaráðherra hér áðan. Hann ákvað að vísu að segja ósatt enn og aftur og halda því fram að tekin hefði verið ákvörðun um að færa heilbrigðisþjónustuna yfir í félags- og tryggingamálaráðuneytið í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Ekkert er ósannara. Og ekkert af því sem hér er gert var búið að ganga frá þá. Það veit hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra betur en flestir aðrir. Og bara til að útskýra fyrir hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra eru hjúkrunarheimili ekki hefðbundin heimili. Þau eru ekki búsetuúrræði. Þau flokkast ekki undir félagsleg aðstoð. Það eru sjúkrastofnanir þar sem einkum aldraðir eru síðustu æviárin sín. (Gripið fram í.) Að meðaltali eru þeir þar tvö síðustu árin sín (Gripið fram í.) á hinum Norðurlöndunum en aðeins lengur hér á Íslandi. (Gripið fram í.) Hjúkrunarheimili eru ekki einskorðuð við eldra fólk, það er alls ekki svo. Það er fólk á öðrum aldri á hjúkrunarheimilum.

Það dettur engum í hug að aldursskipta heilbrigðisþjónustunni. Að meðaltali er kostnaður við heilbrigðisþjónustu við þá sem eru 60 ára og eldri fjórum sinnum meiri en við þá sem yngri eru. Það liggur alveg fyrir að við munum auka heilbrigðisþjónustuna með hærri meðalaldri þjóðarinnar. Það er hærra hlutfall eldra fólks, meiri kostnaður. Sama á við um heilsugæsluna o.s.frv.

Að fara að aldursskipta þessu, skipta þessu upp hefur ekkert með faglega vinnu að gera. Þetta er smákóngabarátta stjórnmálamanna og embættismanna og ég styð hæstv. heilbrigðisráðherra og hv. þm. Þuríði Backman að fara hér faglega yfir málið.