138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

viðvera ráðherra.

[14:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mér finnst orðið mjög brýnt að forseti Alþingis fari að taka á vissum hlutum eins og t.d. því að hv. efnahags- og skattanefnd fundaði í morgun og ég bar upp þau atriði sem hafa komið upp undanfarið, eins og t.d. uppgjör Landsbankans sem er mjög mótsagnakennt og þyrfti að skoða því það hefur efnahagslegar afleiðingar og upplýsingar um allt of háa vexti sem við erum að greiða af Icesave, sem hefur líka heilmikil efnahagsleg áhrif. Ég gagnrýndi það á sínum tíma hvað efnahags- og skattanefnd fór flausturslega yfir það mál og eiginlega ekki neitt og ég held að það sé orðið mjög brýnt, frú forseti, að kanna hvort yfirleitt sé sú tímapressa á Icesave-málinu að við þurfum að ræða það og afgreiða fyrir áramót. Ég hugsa að úr þessu sé hægt að afgreiða það með vorinu, því við höfum fundið út hverjir það voru sem kúguðu okkur og þeir hafa fallið frá því og eftir það er í rauninni engin ástæða til að flýta málinu.