138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

viðvera ráðherra.

[14:48]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hafa óskað eftir því að hlé verði gert á þessum fundi til að málið geti farið fyrir nefndina áður en 2. umr. um það lýkur. Margvíslegar upplýsingar hafa komið fram, nýjar upplýsingar sem þarf að fara betur yfir en einnig vil ég bæta í þann sarp sem hefur verið talað um hér. Það hefur verið talað um Sigurð Líndal og það hefur verið talað um Ragnar Hall en ég vil líka ítreka ósk okkar sjálfstæðismanna, fulltrúa okkar í fjárlaganefnd, að fá fyrrverandi formann Samfylkingarinnar, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, á fund nefndarinnar til að fara yfir þau ummæli sem hún hefur haft um málið, en þau eru mjög athyglisverð. Einnig — og nú fer ég að hljóma eins og gömul plata — vil ég enn á ný ítreka það sem ég óskaði eftir við 1. umr., óskaði eftir á sumarþinginu, að fá allar fundargerðir af fundum samninganefndarinnar með Bretum og Hollendingum (Forseti hringir.) þar sem fyrirvararnir voru kynntir, ég óska eftir því að fá þær upplýsingar (Forseti hringir.) til umræðu í nefndinni.