138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu. Það er ljóst af ræðu hans og annarra sem hér hafa talað að áhyggjurnar hjá þingmönnum sem tjá sig um þetta mál yfirleitt eru miklar og ekki að ástæðulausu. Það eru enn að koma fram upplýsingar, sjónarmið og efasemdir sem nauðsynlegt er að svara. Það er mikilvægt að þeir ráðherrar sem hafa verið við umræðuna, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, leggi sig fram um að svara þeim spurningum eða aðstoði okkur við að koma þeim í réttan farveg.

Mig langar að spyrja hv. þingmann sem hér talaði, Birgi Ármannsson, hvaða málsmeðferð hann teldi að ætti að hafa vegna þessara upplýsinga um stjórnarskrána, hvaða málsmeðferð væri eðlileg í þinginu, og einnig hvort hann telji líkt og ég að í þessum nýja samningi séu íslensk stjórnvöld í raun að lýsa vantrausti á (Forseti hringir.) dómstóla á Íslandi en ekki erlendu aðilarnir. (Forseti hringir.) Getur verið að vandinn sé heimatilbúinn varðandi dómstólana?