138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi dómstólana fyrst, það er auðvitað ljóst að þetta sérkennilega ákvæði um að niðurstaða Hæstaréttar Íslands sé einvörðungu bindandi ef það er í samræmi við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins felur eðli málsins samkvæmt að einhverju leyti í sér vantraust á íslenska dómstóla. Ég veit ekki hvort það er frá erlendum aðilum komið eða innlendum, ég veit ekki hvernig þetta atriði var rætt milli samningsaðila. Hins vegar er alveg ljóst að þarna er um að ræða mjög sérkennilegt framsal á dómsvaldi því að við höfum ekki séð áður í lagatexta á Íslandi ákvæði um það að ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins væri í raun bindandi. Það hefur alltaf verið gengið út frá því og það var forsenda við gerð EES-samningsins (Forseti hringir.) að ráðgefandi álit væri ráðgefandi en ekki bindandi. (Forseti hringir.)