138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Út af þessari spurningu hv. þingmanns vildi ég segja að ég er honum sammála. Ég held að svo mörg vafamál hafi komið upp í sambandi við þetta frumvarp að það kalli á miklu ítarlegri og betri yfirferð í efnahags- og skattanefnd annars vegar og fjárlaganefnd hins vegar. Raunar er ég sammála því sem kom fram hjá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni áðan að utanríkismálanefnd ætti auðvitað að fjalla um vissa þætti þess líka. Mér finnst það skylda þingsins þegar upp koma verulega harðar gagnrýnisraddir og efasemdir, bæði um efnahagslega þætti en eins um stjórnskipulega þætti, og skylda okkar sem þingmanna og skylda þingnefnda að kafa ofan í málið en ekki skauta yfir þetta eins og mér finnst meiri hlutinn hafa gert í afgreiðslu sinni innan fjárlaganefndar. Það er skautað yfir óþægilegu hlutina og látið nægja að segja: Við teljum að þetta sé svona, en menn skila svo bara auðu (Forseti hringir.) þegar kemur að því að rökstyðja mál sitt. (Forseti hringir.)