138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir bendir á að það er alveg átakanlegt hve stjórnarliðar sinna þessari umræðu lítið. Það var lífsmark með þeim hér á fimmtudaginn svona fram eftir degi en núna sjást þeir varla við umræðuna með ákveðnum mjög virðingarverðum undantekningum, eins og að hæstv. fjármálaráðherra er ekki langt undan og hv. þm. Oddný Harðardóttir er líka nærstödd. En þátttaka stjórnarliða í umræðunni hefur líka verið alveg dæmalaust lítil og miðað við mælendaskrá stefnir ekki í að hún verði mikil í dag. Það er auðvitað ákveðið merki um rökþrot í málinu.

Varðandi það hvort svigrúm sé til að breyta málinu, verð ég að vitna í það að fram eftir öllu sumri stóð það upp úr hæstv. fjármálaráðherra hvað eftir annað hér að ekkert svigrúm væri til að breyta málinu. Það var uppleggið sem hann kom með þegar hann lagði fram frumvarp í byrjun júlí og fylgdi því síðan eftir. (Forseti hringir.) Það var ekkert svigrúm, það var (Forseti hringir.) sama og hann segir núna.