138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil þakka sérstaklega fyrir þessar upplýsingar, ég þakka forseta sérstaklega fyrir þær. Við munum þá fylgja málinu eftir fram eftir degi. Við höfum líka kallað eftir forsætisráðherra. Við vitum að hæstv. forsætisráðherra fundar með okkur nú klukkan fjögur ásamt hæstv. fjármálaráðherra þannig að fjarvera úr þingsalnum nú næstu mínúturnar er skiljanleg en ég tel engu að síður mikilvægt að forsætisráðherra verði í salnum.

Við vorum að hlusta á mjög góða og merka ræðu hv. þm. Birgis Ármannssonar þar sem hann fór gaumgæfilega yfir mikil þungavigtaratriði í málinu. Við erum að tala um hvernig ákveðnir þættir í málinu stangast á við stjórnarskrána. Þess vegna skiptir máli að við fáum að vita hvort forsætisráðherra ætlar að vera hér til andsvara og svara merkum spurningum frá þingmönnum eða hvort hún ætlar að taka til máls í þessu máli, því eins og við vitum vel er svo mörgum spurningum ósvarað. (Forseti hringir.) Við hrópum á svör en fáum þau ekki. Við (Forseti hringir.) biðjum um fundi í nefndum en fáum þá ekki. (Forseti hringir.) Þess vegna ætlumst við til að hæstv. forsætisráðherra verði (Forseti hringir.) hér til að liðka fyrir umræðunni.