138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:49]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni um þetta. Það dapurlega er í raun og veru að þingmenn allra stjórnmálaflokka höfðu nýlega komið af þjóðfundi 1.500 Íslendinga þar sem einkunnarorðin voru samvinna, gegnsæi, réttlæti og heiðarleiki. Hvaða gegnsæi er í þessari umræðu þegar við fáum ekki þau gögn sem við óskum eftir? Er þetta lýðræðislegt? Og það liggur við að ég segi í svona stóru máli: Er þetta heiðarlegt? Eru þetta heiðarleg vinnubrögð gagnvart þeim 90.000 Íslendingum sem kusu þá aðila sem eru ekki í stjórnarmeirihlutanum á Alþingi? Það eru engin ný vinnubrögð hjá þessum meiri hluta á Alþingi. Ríkisstjórnin er að ganga gegn þeim skilaboðum sem m.a. komu frá þjóðfundi 1.500 Íslendinga sem var glæsilegt framtak. Það er ekkert hlustað, þessi ríkisstjórn er gjörsamlega einangruð og þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð í þessu máli eru forkastanleg.