138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi beina spurningu til hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar í tilefni af eina framlagi stjórnarflokkanna til þessarar umræðu í dag sem var frammíkall frá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, sem sagði að ekkert nýtt hefði komið fram í málinu sem gæfi tilefni til þess að fara með málið í nefnd. Og því vildi ég spyrja hv. þm. Birki Jón Jónsson, sem hefur kynnt sér málið vel og átti sæti í efnahags- og skattanefnd þegar hún fjallaði um það, hvort hann telji að búið sé að fá viðhlítandi svör við því hvort það breytti einhverju um túlkun fyrirvaranna að þeir væru komnir undir enskt réttarsvið í stað íslensks réttarsviðs, hvort stjórnarskrárþátturinn væri að mati hv. þingmanns eitthvað sem hefði verið tekið til skoðunar með fullnægjandi hætti, hvort búið væri að fjalla um og komast að niðurstöðu í sambandi við gengis- og gjaldmiðlaáhættu og hvort búið væri að skoða vaxtahættuna í ljósi þeirra upplýsinga sem nýlega hafa komið fram.

Þá vildi ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji að búið sé að gera fullnægjandi grein fyrir því hvernig endurheimtur verði úr búi Landsbankans vegna þess að það skiptir auðvitað mjög miklu máli (Forseti hringir.) hver höfuðstóllinn verður þegar við byrjum að greiða 2016.