138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:04]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er hálfleiðinlegt að koma hér upp í áttunda sinn í andsvar og svara spurningum um það hvort hv. efnahags- og skattanefnd hafi skoðað hin og þessi mál, sem því miður var ekki. Allar þær spurningar sem hv. þingmenn hafa borið hér upp eru mjög efnislegar og eiga rétt á sér en því miður var þetta mál rifið út með algjöru ofbeldi stjórnarmeirihlutans og þess vegna er umræðan eins og hún er. Ég hefði gjarnan viljað skoða ákveðin mál á vettvangi nefndarinnar rétt eins og það álitamál sem Daniel Gros, fulltrúi Framsóknarflokksins í Seðlabanka Íslands, hefur nefnt gagnvart þeim mismun sem Bretar sýna sínum innstæðusjóðum gagnvart vaxtaprósentu. Það munar 185 milljörðum kr. Ef við horfum á skattahækkanirnar á heimilin og fyrirtækin á næsta ári sem eru mjög umdeildar eru það 43 milljarðar kr. þannig að þetta eru skattahækkanir ríkisstjórnarinnar í rúm fjögur ár sem þarna munar í vaxtakostnaði. Ég hefði haldið að það væri nær að kalla saman einn fund til þess að fara yfir það mál.