138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:05]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess að ég rek augun í það að hæstv. fjármálaráðherra er hér staddur sem endranær og kann ég því vel. Nú er hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson að fara að taka til máls, formaður Framsóknarflokksins, og ég tek eftir því, án þess að ég gerist einhver sérstakur talsmaður þingmannsins, að forsætisráðherra er ekki í salnum og hefur ekki verið um nokkra hríð. Því vildi ég spyrja hæstv. forseta hvort von væri á hæstv. forsætisráðherra í salinn. Mér þykir afleitt að forsætisráðherra sé ekki hér til að hlýða á þessa umræðu vegna þess að ég trúi ekki öðru en að ef hún væri hér og hlýddi á þau margvíslegu rök sem fram koma í þessari umræðu tækist að tjónka við hana og fá hana aðeins til að íhuga og ígrunda þetta mikilvæga mál betur.

Ég spyr hæstv. forseta hvort það sé ekki öruggt að hæstv. forsætisráðherra sé hér og hvort ekki væri hægt að fá hana hingað til að taka þátt í umræðunni.