138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið og fyrirspurnina. Hættan við það að taka sér þann tíma sem þarf í þessu máli er nefnilega engin. Hættan er hins vegar gríðarlega mikil við það að gera þetta í einhvers konar fljótfærni því að enn sjáum við að fram eru að koma grundvallarupplýsingar í málinu. Ég er dálítið hræddur um að íslenskur almenningur yrði býsna lengi ósáttur við þingið sitt ef það kláraði þetta mál með þeim hætti að það væri ekki fullreifað.

Því var haldið fram að við þyrftum að ljúka þessu máli í skyndi til að fá lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Nú hefur framkvæmdastjóri eða forstjóri sjóðsins staðfest opinberlega að svo sé ekki, lán frá sjóðnum séu ekki háð lokum þessa máls, og fulltrúar Norðurlandanna hafa staðfest að þeir muni veita okkur lánafyrirgreiðslu, ekkert sé því til fyrirstöðu. Sú hindrun sem ríkisstjórnin taldi vera þar er því úr sögunni og engin ástæða til annars en að við gerum eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal lagði til áðan, við frestum þessu máli og gefum okkur tíma til að láta þar til bæra sérfræðinga yfirfara það.