138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:58]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna sem er ein af þessum stóru spurningum sem við ættum að vera að ræða í þinginu.

Það er nefnilega rétt að meira að segja Seðlabankinn gengst við því að hér sé að festast í sessi lágt gengi krónunnar. (PHB: Fátæktargildra.) Já, hv. þm. Pétur H. Blöndal bendir réttilega á að í því felst fátæktargildra sem birtist á ýmsan hátt, m.a. í því að fyrirtæki sem skulda í erlendri mynt, flest íslensk fyrirtæki gera það, verða þá ekki rekstrarhæf, munu ekki eiga nægan afgang til að halda fólki í vinnu vegna þess að skuldirnar verða orðnar þeim um megn. Ég fór til að mynda á trésmíðaverkstæði fyrir nokkrum dögum, hitti þar mann sem hafði keypt verkstæðið á 30 og eitthvað milljónir og skuldaði nú 80 og eitthvað. Hann treysti á að gengið mundi styrkjast til að reksturinn yrði arðbær. Með Icesave-samningunum er gengið ekkert að fara að styrkjast og þessi rekstur og annar rekstur í landinu (Forseti hringir.) ekki að verða arðbær.