138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta sem hv. þingmaður bendir á hér er alveg hárrétt. Fjöldi fólks í íslensku samfélagi og reyndar í útlöndum líka er tilbúinn til að leggja okkur lið og leggja á sig alveg gríðarlega vinnu til að hjálpa okkur. En ríkisstjórnin vill ekki þessa hjálp, hún vill ekki góðar fréttir af stöðu Íslands. Og af því að enskir lögmenn voru nefndir hér og það að ríkisstjórnin hefur ekki leitað eftir áliti þeirra, er vert að geta þess að aðrir hafa haft fyrir því að spyrja enska lögmenn út í þessa samninga óformlega og svarið er alltaf á sömu leið. Ég átti reyndar hálfóþægilegt kvöld með hópi enskra lögmanna sem voru búnir að lesa samningana yfir, vegna þess að þeir svo hneykslaðir á þessum samningum að þeir gátu ekki annað en gert grín að íslenskum stjórnvöldum og voru mjög kvikindislegir í því, verð ég að segja, og notuðu þar kynferðislegt líkingamál sem ég mun ekki hafa eftir hér en var þess eðlis að manni leið ekki vel sem Íslendingi.