138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Nú hefur formaður Framsóknarflokksins haldið hér mjög skilmerkilega ræðu og eins og ég gat um áðan er hann rétt að byrja. Það komu margar mjög athyglisverðar ábendingar fram í ræðu hans og hafa líka komið fram í öðrum ræðum í þessari umræðu, 2. umr. um Icesave, til að mynda ábendingar Sigurðar Líndals varðandi stjórnarskrána og hvort þessi hörmulegi Icesave-gjörningur stangist hugsanlega á við hana.

Það skiptir miklu máli upp á það að liðka hugsanlega fyrir umræðunni í þinginu, núna þegar hæstv. forsætisráðherra er loksins mætt í þingsal og farin að hlusta, að við fáum sjónarmið forsætisráðherra varðandi þær mikilvægu ábendingar sem hafa komið fram eftir að við byrjuðum að ræða málið, þ.e. ábendingar Sigurðar Líndals, ábendingar frá Daniel Gros og líka frá Stefáni Má Stefánssyni háskólaprófessor. Það skiptir okkur máli að vita hvert er sjónarmið forsætisráðherra Íslands og okkar allra í þessum málum og þeim ábendingum sem hafa verið dregnar fram á síðustu dögum. Þetta verður að koma fram upp á frekara framhald umræðunnar í dag og í kvöld.