138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Síðasta athugasemd hæstv. forsætisráðherra sýnir að hún hefur ekki fylgst nógu vel með umræðunni. Stjórnarandstæðingar hafa sérstaklega tekið fram að þeir muni hleypa öðrum málum í gegn, brýnni málum eins og fjárlagafrumvarpinu eða skattalagabreytingum og öðru slíku sem við vitum að er mjög brýnt, þannig að þetta er ekki rétt hjá ráðherranum.

Mig langar til að spyrja að einu sem ég er búinn að spyrja um nokkuð oft og fæ aldrei svar: Eru bresk og hollensk stjórnvöld búin að gefa ádrátt um að þau fallist á þá fyrirvara eða þau skilyrði sem eru í núgildandi lögum frá Alþingi? Það eru í gildi íslensk lög frá Alþingi og ég hef spurt að því aftur og aftur, það er væntanlega búið að kynna þetta, hvort þau séu búin að gefa ádrátt um að þau fallist á skilyrðin eða hvort þau séu búin að gefa ádrátt um að þau fallist ekki á skilyrðin þannig að við vitum hvar við stöndum í því máli. Ef þau hafa gefið greinilega til kynna að þau fallist ekki á skilyrðin er málið dautt, (Forseti hringir.) þá eru þau lög ekki í gildi og þá getum við rætt það áfram.