138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:23]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég spyr hæstv. forseta og reikna með að fá svar við því á eftir hver stýri störfum þingsins. Eru það hæstv. ráðherrar, eða eru það hv. þingmenn sem sitja í forsætisnefnd Alþingis? Nú höfum við mörgum sinnum í dag beint því til mismunandi forseta, hverjir sem það eru sem hafa verið hér á stóli, að flýta fyrir þingstörfum, fara með þetta mál inn í nefnd, greiða úr ákveðnum deilumálum um það, fá þau á hreint og að við mundum vinna að þörfum málum á þinginu sem bíða í hrönnum eftir að verða afgreidd fyrir áramót. Með þessu og með því að meirihlutaflokkarnir þverskallast við í þessu máli þegar þau gætu slegið á fundi í fjárlaganefnd, efnahags- og skattanefnd, utanríkismálanefnd, eru það ríkisstjórnin og meiri hlutinn hér á þingi sem koma í veg fyrir það að mörg brýn mál nái hér fram að ganga. Við höfum rétt fram útrétta sáttarhönd og á hana er slegið. (Forseti hringir.)