138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:25]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég bendi á það sem fleiri þingmenn hafa reyndar bent á nú þegar, að stjórnarandstaðan, minni hlutinn hér á þingi, er ekki að tefja eitt einasta mál. Hér getur ríkisstjórnin komið inn með hvaða mál sem hún vill. Og eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sagði sjáum við þá til hvort málin verða tafin eða ekki.

En það gengur ekki lengur að ríkisstjórnin sé stöðugt að reyna að varpa ábyrgð af aðgerðaleysi sínu yfir á aðra. Það er alltaf einhver fyrirstaða. Það var seðlabankastjórinn, það er Evrópusambandið, það er Icesave, alltaf einhverjar tylliástæður fyrir því að ríkisstjórnin er ekkert að gera. Og núna er ástæðan sú að stjórnarandstaðan er að tala í Icesave-málinu. Það finnst ríkisstjórninni óþægilegt, hún vill að við hættum að tala, vegna þess að það er að sögn ríkisstjórnarinnar fyrirstaða í öðrum málum. Hvaða málum? Hvaða önnur mál er ríkisstjórnin komin með sem tefjast vegna þessa? Og af hverju eru þau mál þá bara ekki sett á dagskrá? (BirgJ: Heyr, heyr.)