138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni, það er auðvitað engin pressa eins og margoft var þó látið í veðri vaka. Ég rakti það hér áðan að formaður samninganefndarinnar um Norðurlandalánin hefur upplýst að þessi pressa hafi ekki verið og þeir hafi ekki tengt þetta Icesave-lausninni og framkvæmdastjóri sjóðsins hefur sjálfur sagt að AGS hafi ekki verið í hlutverki einhvers handrukkara.

Það sem hefur hins vegar komið fram nýtt til viðbótar er það að svo er að sjá af áliti tveggja fulltrúa úr efnahags- og skattanefnd að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi gengið langt í því að kokka upp tölur til þess að láta hlutina líta betur út fyrir Íslendinga. Það er hins vegar hlutur sem hlýtur að þurfa skýringar við og ég vænti þess að hæstv. ríkisstjórn skýri þetta mál alveg sérstaklega út fyrir okkur hvort verið sé að reyna að plata inn á okkur einhverri niðurstöðu og það sé gert með þeim hætti að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hræri í tölunum til að láta þær líta betur út.