138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt, greinargerð Vinstri grænna í efnahags- og skattanefnd er stórmerkileg. Þar er bent á mörg atriði sem eru mikið áhyggjuefni í þessu máli. Í ljósi þeirra atriða og fleiri atriða sem hafa verið nefnd t.d. hér í dag veltir maður fyrir sér: Hvernig stendur á því að þrátt fyrir allt neitar ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar að hlusta? Með öðrum orðum, hver er drifkrafturinn í þessu máli af hálfu ríkisstjórnarinnar? Hvers vegna er hún tilbúin að ganga gegn öllum þessum ráðleggingum, öllum þessum ábendingum og leggja þessar gríðarlegu byrðar á þjóðina? Hvað í ósköpunum getur það verið sem veldur því að ríkisstjórnin vill frekar tala máli Breta og Hollendinga hér í þingsal en að halda á lofti málstað Íslendinga?

Maður getur ekki annað en velt þessu fyrir sér þegar hvað eftir annað kemur utanaðkomandi fólk og bendir okkur á hversu illa hefur verið á þessu haldið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hver er drifkrafturinn sem býr þar að baki?