138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:17]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir yfirgripsmikla ræðu þar sem hann kom að fjölda mála, enda er það svo með þetta ömurlega mál, vil ég nánast segja, að á því eru svo ótal margir fletir að sjálfsagt væri hægt að ræða það endalaust.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um eftirfarandi: Á sumarþinginu og reyndar aftur í haust hefur það ítrekað komið fram í málflutningi ríkisstjórnarinnar eða forstöðumanna hennar, hæstv. fjármálaráðherra ekki síst og hæstv. forsætisráðherra, að einhverjir dagar skipti lykilmáli. Upphaflega voru það lok júlí, síðan lok sumarþings og loks átti 23. október að skipta öllu máli. Nú er okkur sagt — og við höfum nú lifað þetta allt af og þjóðlífið gengur sinn vanagang og meira að segja virðist eitthvað jákvætt vera að gerast — nú er okkur sagt að 30. nóvember sé lykildagur. Deilir hv. þingmaður (Forseti hringir.) áhyggjum ríkisstjórnarinnar um að svo sé, að við séum nauðbeygð til að klára þetta mál fyrir 30. nóvember?