138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:18]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt hef ég lært af reynslunni af núverandi ríkisstjórn og það er að hún hefur litla hæfileika til að spá fyrir um framtíðina. Hún sagði að breytingar í yfirstjórn Seðlabankans mundu nánast redda öllu, að Icesave-niðurstaðan mundi redda öllu, að Evrópusambandsaðildarumsókn mundi redda öllu, að stöðugleikasáttmálinn mundi redda öllu en hafði síðan allt uppi til að eyðileggja þann sáttmála sjálf, og þar fram eftir götunum.

Ég segi bara: Það sem hæstv. ríkisstjórn spáir í þessa hluti fram í tímann finnst mér ekki mjög líklegt að rætist. Það er einfaldlega þannig að samningurinn sem við erum að fjalla um hér er afleitur samningur. Hann er ekki í samræmi við þá niðurstöðu sem Alþingi komst að fyrr á þessu ári, hann er fráleitt í samræmi við þá niðurstöðu sem Alþingi komst að í desember á síðasta ári og þess vegna tel ég að þessi samningur sé af þeim toga að við eigum auðvitað að hafna honum (Forseti hringir.) eins og nú er í pottinn búið.