138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

vísun Icesave aftur til nefndar.

[20:01]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að taka undir orð hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar. Við höfum kallað eftir því í umræðunni í dag að þetta verði einmitt gert, að umræðunni verði frestað og málið kallað inn í nefnd til að fara yfir þessi miklu og stóru efnisatriði sem hafa verið rædd og hafa komið upp á undanförnum dögum.

Það er gríðarlega mikilvægt að þetta mál verði vel unnið og því var lofað eftir því sem mig minnir þegar málið var hér til 1. umr. Ég skora á hæstv. forseta að taka vel í þessa beiðni og kalla saman þær nefndir þingsins sem um geta fjallað vegna þess að ég tel að allir þingmenn séu tilbúnir að mæta á nefndarfundi hið fyrsta til að fara yfir þessi gríðarlega mikilvægu mál.

Frú forseti. Sú samstaða sem heyrst hefur í þessum stól í dag er náttúrlega mikilvæg. Þeir sem hafa tekið til máls hafa flestir verið á þeirri skoðun (Forseti hringir.) að það væri mikilvægt að fresta þessari umræðu.