138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

vísun Icesave aftur til nefndar.

[20:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þau sjónarmið sem hafa komið fram hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni og Unni Brá Konráðsdóttur. Ég vildi nefna eitt atriði við hæstv. forseta sem er því ótengt í sjálfu sér en það er spurningin hvort það kunni að hafa verið einhver misbrestur á því að hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs væri gerð grein fyrir því að þessi umræða ætti að fara fram hér í dag og kvöld. Hér hefur hæstv. fjármálaráðherra vissulega verið en nú er það ekki svo að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi talað einni röddu í þessu máli heldur mörgum, en hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa ekki verið hér og eru ekki á mælendaskrá. Einn þingmaður þeirra var á mælendaskrá en tók sig út einhvern tímann um miðjan dag.

Ég er að velta fyrir mér hvort einhver boðskiptavandi hafi verið fyrir hendi sem geri það að verkum að þessum hv. þingmönnum, heilum þingflokki, (Forseti hringir.) hafi ekki verið ljóst að þessi umræða ætti að fara fram.