138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

vísun Icesave aftur til nefndar.

[20:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum lið til að vekja athygli á því, þó að það séu ekki neinar nýjar fréttir, að hér er enginn hv. stjórnarþingmaður í salnum og enginn hæstv. ráðherra. Ég teldi mjög mikilvægt að fá þá hingað vegna þess að hv. þm. Pétur H. Blöndal er að fara að flytja ræðu sína á eftir og hann er einn af þeim þingmönnum sem hefur verið hvað árvökulastur, hefur passað mjög vel upp á þetta mál og bent á mörg ný sjónarhorn, m.a. það sem kom upp síðast, sem við fjölluðum ekkert um í sumar, þ.e. að búið væri festa kröfu innstæðutryggingarsjóðsins. Þess vegna spyr ég, frú forseti, hvort hún geti gert ráðstafanir til þess að boða eitthvað af þessu fólki hingað til fundar. Einnig væri það mjög æskilegt vegna þess að það hefur margoft komið fram í þessum ræðustól að margir hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn skilja hvorki upp né niður í þessu máli.

Gæti hæstv. forseti líka upplýst hvað fundur á að standa lengi hér í kvöld?