138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

vísun Icesave aftur til nefndar.

[20:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Ég tek undir þetta varðandi það að við þurfum að fá fleiri stjórnarliða og ráðherra í salinn, frú forseti. Ég held að það sé líka vel þess virði að lýsa eftir þingmönnum Vinstri grænna, frú forseti.

Mig langar þó að nefna hér það sem ég nefndi áðan, að það verði tekið upp við formenn nefnda og nefndarmenn hvort rétt sé að þetta mál fari yfir á forsvar efnahags- og skattanefndar í ljósi þeirra breytinga sem málið hefur tekið. Ég held að það sé mikilvægt að sú nefnd taki hreinlega við málinu.

Annað sem ég vil biðja frú forseta að huga vel að varðar stjórnarskrárákvæðið, ef á það verður ekki fallist að nefndirnar komi saman og fjalli um það ákvæði beini ég því til forseta að forsætisnefnd muni fjalla ekki síðar en á morgun um þetta brýna mál því að það er algjör óhæfa, og væntanlega þá á ábyrgð þeirra sem stýra þinginu, ef það er hætta á því að þingið og þingmenn fremji hér stjórnarskrárbrot.